©2019 // Fatahönnunarfélag Íslands 
fatahonnunarfelag@honnunarmidstod.is

LÖG FATAHÖNNUNARFÉLAGS ÍSLANDS

1. gr.

Félagið heitir “Fatahönnunarfélag Íslands”, starfssvið þess er allt landið. Lögheimili þess og stjórnarinnar er í Reykjavík. Á ensku heitir félagið „Icelandic Fashion Council“
 

2. gr.

Markmið félagsins eru:

a. að efla samheldni meðal þeirra sem starfa við fatahönnun á Íslandi

b. að efla hugvit í íslenskri fatahönnun

c. að koma í veg fyrir að réttur félagsmanna sé fyrir borð borinn og stuðla að öllu því er til framfara horfir í greininni

d. að koma fram upplýsingum sem verða fatahönnuðum til framdráttar, (svo sem samkeppnir og fleira)

e. að setja upp upplýsingaform um fatahönnuði á Íslandi

f. að efla samskipti íslenskrar verslunar og fatahönnuða

g. að upplýsa almenning um fatahönnuði og þeirra starfsvettfang

h. að koma á reglulegu sambandi við þá sem starfa við fatahönnun og/eða eru í námi erlendis
 

3. gr.

Aðalfundur kýs stjórn félagsins.

Stjórn félagsins skipa: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, vefstjóri og einn meðstjórnandi. Formaður skal hafa a.m.k. þriggja ára starfsreynslu í greininni. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, ásamt einum varamanni. Kosning skal vera skrifleg og leynileg á aðalfundi. Varamaður tekur einungis stjórnarsetu í því tilfelli að stjórnarmaður forfallist og gefi eftir stjórnarsæti sitt.

Stjórn félagsins ræður skoðunarmann reikninga sem skal rannsaka reikninga félagsins fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund. Skoðunarmaður má ekki vera úr hópi stjórnarmanna eða félagsmanna. Heiðursfélagar skulu kosnir á aðalfundi.

Hver sá félagsmaður sem vill sitja stjórnarfund skal senda bréf þess efnis til stjórnar með tveggja vikna fyrirvara.
 

4. gr.

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok júní ár hvert og boðaður með minnst tveggja vikna fyrirvara.
Á dagskrá aðalfundar skal vera:

a. skýrsla stjórnar

b. reikningar félagsins

c. kosning stjórnar

d. skipað í nefndir

e. lagabreytingar

f. umræða og afgreiðsla mála

Fundur er löglegur ef löglega er boðað til hans. Rannsaka skal í byrjun fundar, hvort fundur sé lögmætur og lýsa því síðan yfir, hvort svo sé.
 

5. gr.

Fundir skulu haldnir þegar þörf krefur. Boða skal til aukafundar ef minnst 10 félagsmanna krefjist þess. Um boðun aukafunda gilda sömu reglur og um aðalfund.

6. gr.

Lögum félagsins má ekki breyta nema á löglegum aðalfundi. Til að lagabreyting öðlist gildi þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða lögmæts aðalfundar.
Lagabreytingar skulu kynntar með fundarboði.

7. gr.

Formaður skal boða til funda og stjórna þeim eða skipa fundarstjóra í sinn stað. Hann skal vinna að stefnumörkun fyrir félagið og sjá um framkvæmd ákvarðana aðal- og félagsfunda í samráði við stjórn. Afl atkvæða stjórnarmanna ræður afgreiðslu mála. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans.

Ritari skal færa bók um allt það sem gerist á fundum félagsins og stjórnar. Einnig að lesa upp fundargerð í upphafi næsta fundar. Ennfremur rita bréf félagsins í samráði við formann. Formanni og ritara ber skylda að leggja bréf fram til stjórnar til samþykktar.


Gjaldkeri skal sjá um varðveislu sjóða félagsins í samráði við stjórn. Hann tekur á móti félagsgjöldum og sér um innheimtu á þeim. Hann borgar út reikninga félagsins. Hann leggur fram endurskoðaðan ársreikning á aðalfundi. Hann sér einnig um eignir félagsins.


Meðstjórnandi starfar að öllum tilfallandi málum er þurfa þykir með öðrum stjórnarmönnum og tekur sæti þeirra í forföllum þeirra eftir ákvörðun stjórnar.

Ef stjórnarmaður mætir ekki á þrjá fundi í röð og láðst hefur að tilkynna forföll, fellur hann sjálfkrafa frá og varamaður kemur í hans stað. Stjórnarmenn verða boðaðir á fundi aðeins einu sinni. Sama gildir um nefndarmenn.

Stjórn skal skipa þriggja manna Fagráð Fatahönnunarfélags Íslands til þriggja ára í senn. Fagráðið skulu sitja fatahönnuðir sem starfað hafa í faginu í a.m.k. fimm ár og hafa sýnt faglegan árangur í starfi. Fagráð kemur sér saman um tvo varamenn. Hlutverk Fagráðs er m.a. að meta umsóknir um félagsaðild frá aðilum sem ekki geta sýnt fram á háskólagráðu í fatahönnun og að hafa faglega aðkomu að viðburðum sem hafa með hagsmuni fatahönnuða á Íslandi að gera. Stjórn félagsins metur hvenær kalla skuli til Fagráð og hefur milligöngu um það gagnvart hagsmunaaðilum.

8. gr.

Stjórnin skal halda meðlimaskrá og færa inn í hana alla nýja félaga. Þeir einir geta orðir félagsmenn sem eru háskólamenntaðir fatahönnuðir eða sem Fagráð, sbr. 7. gr., metur hæfa til inngöngu. Félagið leggur megin áherslu á vægi hugvits innan fatahönnunargeirans.

Sérstök nemendaaðild skal veitt nemendum í háskólanámi í fatahönnun. Nemendaaðild veitir rétt til þátttöku í félagastarfi félagsins og tillögurétt án atkvæðisréttar.

9. gr.

Sá sem óskar inngöngu í félagið skal senda rafræna umsókn í gegnum vef Hönnunarmiðstöðvar. Stjórn og Fagráð munu meta innsendar umsóknir um leið og þær berast. Ef umsækjandi er með háskólagráðu í fatahönnun er hann sjálfkrafa samþykktur inn í félagið og sendur verður reikningur í heimabanka. Ef umsækjandi þarf undanþágu mun umsókn vera tekin fyrir af Fagráði sem fyrst eftir bestu getu. Sé umsækjandi samþykktur og hafi greitt félagsgjald, öðlast hann þegar full félagsréttindi.

10. gr.

Félagsgjald skal ákveða á aðalfundi fyrir hvert komandi ár. Allir félagsmenn skulu vera skuldlausir fyrir aðalfund ella missa þeir atkvæðisrétt og kjörgengi næsta ár.
 Greiði félagsmaður ekki árgjaldið til félagsins í lok þess mánaðar þegar þess er krafist, er heimilt að innheimta hæstu löglega dráttarvexti á hverjum tíma á skuldinni. Stjórn félagsins getur tekið af félagaskrá þá, sem skulda árgjald sitt fyrir eitt ár, enda hafi þeir áður verið bréflega krafðir um greiðslu og þeim kynntar þessar afleiðingar vanskilanna.

11. gr.

Brot á lögum og samþykktum félagsins skal kært til stjórnar. Úrsögn úr félaginu sendist stjórninni.

12. gr.

Leysist félagið upp, skal sjóður þess renna til líknarmála.

13. gr.

Stjórn félagsins ber eftir bestu getu að aðstoða félagsmenn sé þess óskað.

14. gr.

Stjórn félagsins mun sækja um aðild að þeim félagasamtökum sem styrkja Fatahönnunanarfélagið og félagsmenn þess.

 

  • Lög voru samþykkt á aðalfundi 2011.

  • Breytingar á 8. og 9.grein voru samþykktar á aðalfundi 2019