©2019 // Fatahönnunarfélag Íslands 
fatahonnunarfelag@honnunarmidstod.is

  • Fatahönnunarfélag Íslands

Nýr dósents í fatahönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands.

Katrin Maria Karadottir fagstjóri í fatahönnun hlaut á dögunum framgang í stöðu dósents í fatahönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Katrín hefur gegnt stöðu aðjúnkts í fatahönnun frá 2005 og verið fagstjóri í fatahönnun frá 2013.
Hún hefur átt stóran hlut í mótun háskólanáms í fatahönnun á Íslandi og stýrði endurskoðun þess á síðasta ári. Hún sat jafnframt í námskrárnefnd Mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna nýrrar námskrár í fataiðn á Íslandi.

Katrín lauk námi í kjólklæðaskurði og sveinsprófi í kjólasaum frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1999 og diplómu frá Studio Berçot í París árið 2003. Katrín hefur fest sig í sessi sem viðurkenndur fatahönnuður með staðgóða þekkingu á tískuhönnun. Hún er í fremstu röð á fagvettvangi tískuhönnunar hér á landi og hefur verið virk á alþjóðavettvangi.

Frá 2009 til 2013 var Katrín yfirhönnuður og klæðskeri ELLA by Elínrós Líndal og átti hlut í að móta hugmyndafræði fyrirtækisins sem byggði á „slow fashion“. Hún var aðstoðarhönnuður hjá John Galliano og Dior í París á árunum 2004-2005. Á árabilinu 2000 til 2005 starfaði hún jafnframt sem klæðskeri hjá Modelor, Bali Barett, LUTZ og Thomas Engel Hart í París. Hún hefur frá árinu 2012 verið sjálfstætt starfandi fatahönnuður og ráðgjafi, m.a. fyrir Andreu Maack, Andersen & Lauth, Geysi, Sinfoníuhljómsveit Íslands og Landspítalann-Háskólasjúkrahús.

Katrín hefur tekið þátt í áhugaverðum rannsóknarverkefnum sem eru enn í þróun innan og utan Listaháskólans. Má þar nefna verkefni sem tengist endurnýtingu fatnaðar í samstarfi við Fatasöfnun Rauða Kross Íslands. Í því verkefni hafa nemendur á öðru ári í fatahönnun hannað sína fyrstu fatalínu með efnivið sem þeir safna úr Fatasöfnun Rauða Kross Íslands og halda tískusýningu þar sem flíkurnar eru sýndar. Annað rannsóknar- og þróunarverkefni sem Katrín vinnur nú að er stóru fjögura ára rannsókn á sjávarleðri úr fiskroði sem umhverfisvænum valkosti fyrir tískuiðnað. Verkefnið er unnið með alþjóðlegum samstarfsaðilum þvert á fög bæði frá háskólasamfélagi, University of the Arts í London Shenkar College of Engineering and Design, Kyoto Seika University, Politecnico í Mílanó og starfandi fyrirtækjum í faginu, m.a. Atlantic Leather á Sauðárkróki og hefur verið styrkt af Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins.

(Texti tekinn af síðu www.lhi.is)


Við hjá Fatahönnunarfélag Íslands óskum henni innilega til hamingju með stöðu dósents í fatahönnun við hönnunar- og arkitekúrdeild.

62 views